Það er margt sem mig langar að segja í ljósi eineltisumræðunnar, sem nú er í gangi. Ég gæti talið upp þó nokkuð af sorglegum og leiðinlegum dæmum sem við tvíburasystur upplifðum í grunnskóla, en mér finnst að þessir einstaklingar sem áttu í hlut, ekki eiga skilið athygli eða umfjöllun frá mér af neinu tagi. Vona bara að þeir átti sig á hlutunum, fyrr eða síðar, þegar þeir eignast börn og vilja vernda börnin sín frá öllu óréttlæti sem þeir gætu hugsanlega mætt. Fyrir það eitt, að vera ekki eins og „hinir“.
Við systur vorum mjög aktívar og uppátækjasamar sem börn en samt ósköp blíðar og vildum vel. Við vorum ekki með neina greiningu á þessum tíma og vorum þá stimplaðar óþekkar (fórum svo báðar í greiningu á fullorðinsaldri og vorum báðar greindar með ADHD á háu stigi). Eitt með því sárasta sem við lentum í sem börn, það gerðist í nokkur skipti, var höfnunin frá öðrum foreldrum. Við spurðum kannski eftir stelpu, sem var rosalega skemmtileg og góð í skólanum en fengum það svar frá henni að: „hún mætti ekki leika við okkur af því að mamma hennar bannaði henni það“. Hvaða skilaboð eru foreldrar að senda börnunum sínum með þessu? Að það sé allt í lagi að skilja aðra útundan af því að þeir eru „öðruvísi en hinir“? Nei kæru foreldrar, þetta verðum við að stoppa!
Ég er sjálf móðir og ég á dreng sem virðist ætla að líkjast mömmu sinni og frænku þegar þær voru börn. Rétt áður en hann varð 3 ára fékk hann greininguna „mótþróaþrjóskuröskun”, sem er snemmbúin birtingarmynd af ADHD. Hann er uppátækjasamur eins og 3 ára börn eru en hann er jafnframt blíður og góður við alla í kringum sig. Hann dæmir ekki því að allir eru eins í hans huga.
Það sem ég er að reyna að segja er að við sem foreldrar erum fyrirmyndir barnanna okkar og þeirra skoðanir á hlutum og fólki er algjörlega frá okkur komið. Við þurfum að kynnast hinum börnunum áður en við dæmum þau. Þeim líður kannski ekki vel í eigin skinni og þurfa líka á því að halda að aðrir en foreldrar, kennarar og stuðningsfulltrúar komi fram við þau af virðingu. Ef bekkjarfélagarnir hafa ekki vit á því, þá verða foreldrarnir hafa það.
Komum fram við alla af virðingu því að börnin okkar munu læra af því.
ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is