Það var smá challenge að gera þessa köku og ég var búin að mana mig upp í þetta í marga daga. Henti mér svo í málið fyrir áramótin og guð minn góður þetta var sko algjörlega þess virði. Þetta var smá föndur, tók smá tíma og þolinmæði en váá þetta var svakalega skemmtilegt að gera og alveg geggjuð góð kaka sem toppaði annars alveg frábært gamlárskvöld.
Fann þessa uppskrift í geggjaðri kökubók sem ég keypti mér í New York í haust og langaði svo mikið að gera hana fyrst og fremst af því að mér fannst hún svo falleg. Hér er uppskriftin af henni og ég hvet ykkur til að prófa hana.
90 gr kakó
275 ml heitt vatn
160 ml sýrður rjómi
320 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
180 gr smjör mjúkt
120 gr smjörlíki mjúkt
200 gr sykur
90 gr púðursykur
3 stór egg
1 msk vanilludropar
Forhitið ofninn í 170°C.
Blandið saman í skál heitu vatni, kakói og sýrðum rjóma og setjið til hliðar. Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og setjið til hliðar. Setjið smjör og smjörlíki í skál og hrærið saman þangað til það verður létt og ljóst og bætið þá út í sykrinum og púðursykrinum smá saman og hrærið vel eða í um það bil 5 mínútur. Bætið þá út í deigið einu egg í einu og hrærið vel á milli, síðan er gott að blanda þurrefnunum saman við og að lokum kakóblöndunni. Smyrjið 3 form sem eru ekki stærri en 20 cm í þvermál. Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í 35-40 mínútur eða þangað til að þær eru bakaðar í gegn. Kælið þær þá vel eða í allavega 20 mínútur því það er svo erfitt að setja kremið á ef þær eru volgar.
Á meðan getið þið gert kremið á kökuna. Byrjið á því að gera myntusúkkulaðið. Síðan skellið þið ykkur í að gera smjörkremið og þá ættu kökurnar að vera orðnar nógu kaldar til að smella kreminu á þær.
Svo er bara að smella þessu öllu saman, fyrst set ég á neðasta botninn myntukremið, kæli aðeins í ísskápnum svo að ég geti sett smjörkrem yfir það, síðan smelli ég næsta botnin ofan á og geri eins þar set fyrst myntusúkkulaðið, aðeins inn í ísskáp og svo smjörkremið ofan á og þá er það þriðji botninn og endurtek leikinn þar. Síðan set ég þunnt lag af smjörkremi yfir alla kökuna svo að það komi ekki mynslur í kremið yst. Síðan set ég vel af kreminu yfir alla kökuna og skreytið. Ég braut piparmyntu brjóstsykur yfir kökuna og gerði smá mynstur ofan á með matskeið.
Það er mjög gott að geta síðan kælt hana aðeins þegar allt er tilbúið svo að smjörkremið harðni aðeins og kaka haldi sér vel. Ég þurfti t.d. að tæma algjörlega eina hillu úr ísskápnum mínum og taka hana út á meðan ég var að kæla kökuna.
Piparmyntusmjörkrem
500 gr flórsykur
250 gr smjör mjúkt
250 gr smjörlíki mjúkt
2 tsk piparmyntudropar
Setjið smjörið og smjörlíkið í skál og hrærið vel saman þangað til það hefur blandast vel saman þá getið þið bætt flórsykrinum út í og að lokum piparmyntudropunum. Málið er að eftir því sem þið hrærið smjörkrem lengur þeim mun hvítara verður það.
Myntusúkkulaði
180 gr dökkt súkkulaði
120 ml rjómi
2 tsk piparmyntudropar
Setið súkkulaðið í skál og brytjið það niður. Setjið rjómann í pott og hitið að suðu, en hellið honum þá yfir súkkulaðið og látið standa í 2 mínútur en hrærið þá í þessu hægt og rólega þangað til þetta hefur blandast vel saman. Bætið þá piparmyntudropunum út í og kælið í ísskápnum þangað til að það hefur stífnað aðeins, verður eins og þykkt krem.
Gangi ykkur vel elsku vinir og verði ykkur að góðu!!!