Létt skilaboð frá Venna Páer fyrir leikinn í kvöld:
Jæja Aron. Þú ert vonandi sitjandi því hér kemur bomba í þremur pörtum.
1. Það hefur mikið verið talað um breidd danska liðsins og að maður komi í manns stað og allt það kjaftæði. En hvað ef við kæmum í veg fyrir það? Ertu með? Hvað ef við einbeitum okkur að því að blokkera innáskiptingar hjá þeim þannig að þeir neyðist til að spila sama liðinu allan leikinn…… Við getum líka útfært þetta þannig að leyfa þeim bara að skipta ef það er klárlega slakari leikmaður að koma inná (eða mjög meiddur).
2. Ég tel það nokkuð augljóst að ef Strákarnir Okkar söngla eða humma “Danska lagið” í tíma og ótíma, þá muni það taka danina algjörlega úr jafnvægi og jafnvel spyrja þá ítrekað hvort það búi í alvörunni bakari á Nörregade.
Þessi taugahernaður gæti jafnvel hafist strax þegar danski þjóðsöngurinn verður leikinn.
3. Við reynum samningaleiðina fyrir leikinn og bjóðum Danska handknattleikssambandinu 1% makrílkvóta gegn því að okkur verði dæmdur eins marks sigur. Takist það þá minnkar það bæði álag og meiðslahættu.
Við höfum engu að tapa.
Nema leiknum auðvitað og sjálfsvirðingunni.