„Við náum ekki endum saman“ – Hjón sem starfa sem kennarar

Hæ ég heiti Sigga og ég er kennari.

Það hafa verið miklar umræður upp á síðkastið um kjör kennara. Ég hef ekkert mikið verið að velta þessari umræðu fyrir mér eða taka inn á mig orð eins og „þið kvartið svo mikið“ eða „þetta er ekki mönnum bjóðandi!“. Ég kann ekki pólitík og þarf oft að spyrja manninn minn hvað fréttamaðurinn er eiginlega að tala um. Ég veit ekki nákvæmlega hvað aðrar stéttir fá í laun, eða hve marga daga aðrar stéttir fá í sumarfrí. En ég veit þetta.

Ég heiti Sigga og ég er kennari. Ég giftist manni sem er líka kennari. Stundum þá tölum við ekki um annað á heimilinu en kennslu, hugmyndir, uppeldisfræði og kennsluaðferðir. Stundum tölum við jú um fótbolta. Við erum svona hugsjónafólk. Þið vitið. Við elskum að gefa af okkur, vera til staðar fyrir aðra og fá tækifæri til að sá fræjum til barna og unglinga. Okkur finnst við vera gera gagn. Við komum oftast nær brosandi heim úr vinnunni og keppumst við að segja frá reynslu okkar í kennslu og hvernig gekk að prófa nýjar aðferðir. En alveg örþreytt. Við erum fædd kennarar, að mínu mati.

Við erum bæði í rúmlega 100% starfi. Sunnudagarnir okkar fara oft í undirbúning ásamt hluta af kvöldi suma daga. Við búum í 60 fermetrum í blokk í Breiðholti. Fyrir þá sem eru glöggir að reikna, sjá þeir í hendi sér að við borgum ekkert rosalega marga tugi fyrir húsnæðið. Við eigum bíl sem við keyptum á 120.000 krónur. Við erum svo heppin, hann virkar ennþá. Nema við þurfum að líma rúðurnar upp og ef við prumpum þurfum við bara að halda niður í okkur andanum.

Við erum ekki með stöð 2. Við erum í Nova og förum því stundum í bíó. Á tveir fyrir einn þið vitið. Við pöntum okkur stundum hamborgara og franskar fyrir fjölskylduna á 1990 krónur í Hraunberg sjoppunni. Við drekkum ef til vill 4 bjóra á mánuði. Fáum okkur ís einu sinni í viku. Við reykjum ekki og við nýtum fötin okkar vel. Við náum ekki endum saman.

Ég þarf að taka 15 vaktir á veitingastað til að fá sambærileg laun. Ég þarf að vinna svart eina langa vakt og vera á atvinnuleysisbótum til að fá svipuð laun. Ég veit að margir, ef ekki meirihluti þjóðarinnar nær ekki endum saman. En mig langar að tala útfrá mér.

Við höfum verið að ræða það upp á síðkastið að hætta í kennslunni útaf peningunum. Við þurfum að taka mjög mikilvæga ákvörðun næsta haust: Annað hvort okkar þarf að hætta kennslu og snúa sér að öðrum starfsvettvangi. Ég hljóma kannski sjálfumglöð en ég get sagt ykkur það að það væri mikil synd að missa okkur úr kennslunni. Við erum góðir kennarar. Ég veit það í hjarta mínu.

Ég er ekkert brjáluð, gröm eða tryllt. Ég er bara leið. Leið yfir því að ég get ekki unnið vinnuna mína sem ég elska og virði OG náð endum saman. Ég þarf að velja. Ég er ekkert að biðja ykkur um að vorkenna mér. Ég er bara að miðla því til ykkar að það eru fleiri tugir kennara að hugsa um að leita annað. Mér finnst það svo sorglegt. Allur þessi missir fyrir ungu kynslóðin, að kynnast þessum frábæru kennurum.

Ég veit alveg að hamingjan kemur ekki með peningum. En ef maður á nokkra þúsundkalla aukalega um hver mánaðarmót, þá léttir það manni lundina. Þið vitið öll hvað ég er að tala um.

Við verðum að styðja hvert annað í þessari baráttu, standa upp fyrir sjálfum okkur og samþykkja ekki hvað sem er. Við eigum það skilið. Börnin okkar eiga það skilið.

Hafið góðan dag,

Sigga

SHARE