Við þekkjum öll týpuna sem veit allt betur en aðrir, grípur fram í og hefur skoðun á öllu. Í flestum tilfellum er engin að gera neitt rétt samkvæmt þessari týpu og oftar en ekki, snúast skoðanirnar að öðrum með neikvæðum hætti. Þessa týpu er að finna á vinnustöðum, í saumaklúbbum og nánast í hverri fjölskyldu.
Af hverju velti ég þessu fram, jú ég sá á dögunum umfjöllun um The Biggest loser Ísland. Þar var verið að setja út á þáttinn og tilganginn á mjög neikvæðan hátt. Heilbrigðisstarfsfólk var meðal annars í umfjölluninni þar sem lagt var fram að þessi vinsælasti þáttur landsins væri ekki gæfuspor fyrir þá sem í honum eru. Ég er hissa að sjá þessa neikvæðni, ég hef horft á þessa þætti og er að missa mig úr spennu.
Þeir einstaklingar sem valdir voru misjafnir, en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið komnir í líkamlegt og andlegt svartnætti. Offita á sér oft á tíðum rætur sínar í andlegri vanlíðan og í þættinum hefur verið tekið á andlegri vanlíðan, samhliða hörku púli í ræktinni. Allir þeir sem hafa fylgst með þættinum hafa séð þvílíkan mun á andlegri og líkamlegi vellíðan keppenda.
En aftur að týpunni sem ég minntist á byrjun, en það er svo að hálf þjóðin er að breytast í þessa týpu. Við erum gjörn á að setja okkur í dómarasæti og leyfa neikvæðum straumum um allt og ekkert streyma um netmiðla. Það er eins og ekkert megi gera, framkvæma eða leggja til án þess að týpurnar í samfélaginu fái notið sín með tilheyrandi niðurrifs-tilgangi.
Ég veit ekki betur en þessir einstaklingar sem taka á því í þættinum hafi að sjálfsdáðum sóst eftir því að komast að og voru valinn úr stórum hópi umsækjenda. Þau voru í svartnættinu en hafa nú snúið til fyrri reisnar, öðlast sjálfsvirðingu og grennst í leiðinni. Það má með sanni segja að Skjár einn hafði rétt þessu fólki hjálparhönd sem ber að fagna. Þá má ekki gleyma því að þau eru öll þvílíkar hetjur, það er ekki auðvelt fyrir fólk í yfirþyngd að stíga fram, viðurkenna vandann og koma fram fyrir alla þjóðina fáklætt og stíga á sinn versta óvin, vigtina.
Ég ber þvílíka virðingu fyrir þessu fólki og tek ofan fyrir þeim og óska þeim alls hins besta. Þið sem viljið vera leiðinlega týpan, þið verðið bara að læra að hafa hemil á ykkur, þessi þáttaröð er í gangi í tuttugu löndum með frábærum árangri og eitt eða tvö tilfelli er vart mælanleg orsök á móti þeirri sem telur alla þá einstaklinga sem hófu nýtt líf eftir þátttöku.
Árni býr í Reykjavík en ólst upp í Garðinum. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Að því gefnu hefur hann mikinn áhuga á stjórnmálum, ásamt því að vera mikill áhugamaður um hönnun, arkitektúr og ljósmyndun. Árni hefur gaman að tónlist og leiklist, kvikmyndum og matargerð annarra. Hann viðurkennir fúslega að vera ömurlegur í eldhúsinu og leggur ekki á nokkurn mann að koma í mat til sín. Nýja dellan er að vaða um íslenska náttúru með myndavélina og reyna að ná góðum myndum með misjöfnum árangri. Árni er mikil félagsvera og nýtur sín best í góðra vina hópi og með fjölskyldunni. Hann er dýravinur, en gengur illa að eiga gæludýr. Þau annað hvort drepast eða flýja af heiman. Árni gleymir sér á netinu við að skoða fallega hönnun, heimili og fasteignasíðurnar eru í miklu uppáhaldi. Árni deilir með okkur því sem hann fellur fyrir hverju sinni og reynir að koma víða við í stílum og hönnun til að ná til sem flestra. Árni heldur úti Facebooksíðu þar sem hann deilir hugðarefnum sínum, enda kallar hann síðuna Hugarheim Árna.