Viðtal: Maðurinn á bak við Made By Iceland

Fallega landið okkar hefur löngum verið vinsælt viðfangsefni fyrir ljósmyndara og leggja margir þeirra töluvert á sig til þess að fanga fegurðina á filmu.

Screen Shot 2014-12-01 at 12.41.57

Það er klifrað upp fjöll og firnindi eða gist einhversstaðar í auðninni til þess að bíða eftir réttum aðstæðum til að ná mynd af norðurljósunum eða stjörnubjörtum himninum og vetrarbrautinni.

Gunnar Steinn Úlfarsson er maðurinn á bakvið ljósmyndirnar hjá Made By Iceland sem vakið hefur verðskuldaða athygli en facebook-síðan er komin með yfir 138.000 fylgjendur.

Við tókum Gunnar Stein tali og forvitnuðumst um starf hans sem ljósmyndari.

 

Hvernig kom Made By Iceland til sögunnar?

„Þetta byrjaði árið 2010 en þá var ég að vinna við hönnun og smíðar á uppfinningu til þess að taka hreyfanleg myndbönd eða svokallaða timelapse-dolly. Það var svo ákveðið að finna fjárfesta og hefja fjöldaframleiðslu þar sem smíðin á græjunni tókst vonum framar. Í kjölfarið hóf ég að taka myndir til þess að sýna virkni græjunnar en það tók hinsvegar fljótt óvænta stefnu þar sem athyglin á myndirnar varð miklu meiri en á uppfinninguna sjálfa.

Það byrjaði á því að lítið myndband sem ég gerði dreifðist hratt um netið, og skömmu seinna var myndefnið komið á RÚV og rann þar á milli dagskrárliða. Það þurfti svo að gefa þessu nafn. Ég var mjög heppinn og fann laust nafnið Made By Iceland bæði sem .com og .is. Mér fannst það nafn lýsa því vel sem ég var að gera, enda er afurðin búin til af landinu sjálfu, ég kem svo bara og tek myndir af því.“

Screen Shot 2014-12-01 at 12.42.49

Það var svo árið 2012 sem ég ákvað að opna síðu á Facebook og fékk mikinn snilling að nafni Oscar Bjarnason til að gera logo sem ég tel hafa heppnast afskaplega vel. Ég birti svo fyrstu myndina í júní 2012 í tilraunaskyni og áhuginn hefur ekki látið á sér standa síðan. Aðdáendur eru nú orðnir yfir 130 þúsund og koma frá öllum heimshornum.“

Finnurðu fyrir miklum áhuga erlendis?

„Flestir aðdáendur Made By Iceland hafa mikinn áhuga á landi og þjóð þótt sumir séu þar bara myndanna vegna og hafa engan sérstakan áhuga á landinu. Margar myndanna hafa náð mikilli dreifingu og það eru dæmi um að þeim hafi verið deilt í nokkur þúsundir skipta. Einnig fæ ég mikið af bréfum frá fólki sem segist ætla að koma til Íslands eftir að hafa séð myndirnar en vita ekkert um landið og langar að fræðast meira.“

Hvert ferðu til þess að taka ljósmyndir? 

„Ég tek þetta svona í syrpum. Suma mánuði er ég úti í náttúrunni dag sem nótt en aðra mánuði skýst ég frekar í stutta túra og fer þá á fallega staði í nálægð Reykjavíkur eins og Þingvelli, Reykjanes og aðrar perlur sem eru hér allt í kring. Oftar en ekki er hægt að sjá norðurljós þegar maður fer örlítið út fyrir bæjarmörkin. Ég sæki allan minn innblástur í náttúruna sjálfa enda er hún engu lík og breytist mikið, bæði landslagið sem og birtan. Það eru engir tveir dagar eins.“

straumsvik

Hvert er vinsælasta viðfangsefnið?

„Norðurljósin eru alltaf vinsæl og líka birtan sem er hérna í júní og júlí þegar bjart er allan sólarhringinn. Það finnst fólki afskaplega áhugavert. Svo eru sólarupprisa og sólsetur ávallt vinsæl sem og hestar, fossar og fleirra. Einnig held ég að fólk trúi oft ekki að þetta sé allt á sama litla landinu, það er að segja þessi flóra af fallegum og einstaklega sérstökum stöðum sem fólki langar að koma á og upplifa sjálft í bland við ótrúlega birtu.“

Þarf maður ekki að vera í góðu formi til að klöngrast upp fjöll og firnindi?

„Jú, ég sá að það var ekki hægt að vera í slöppu formi og tók mig þvílíkt á. Núna byrja ég daginn á æfingum heima, hleyp svo góðan hring úti og enda á nokkrum ferðum í laugunum. Allt annað líf eftir að ég byrjaði á að hreyfa mig.“

Screen Shot 2014-12-01 at 12.42.10

Geturðu sagt mér aðeins frá nýjasta uppátækinu þínu „Eitt á dag – hjálpum þeim heim?“

„Hahaha, já. Ég hleyp reglulega í Laugardalnum og mér blöskraði svo að sjá hvernig fólki tekst að henda rusli út um allt þrátt fyrir fjöldan allan af ruslatunnum. Ég stofnaði því Facebook síðu þar sem ég tek myndir af ruslinu og hjálpa því heim á réttan stað. Nú er bara að vona að sú síða verði jafn vinsæl og Made By Iceland og að rusl hverfi af götum borgarinnar.“

Brennurðu fyrir eitthvað annað en ljósmyndun?

„Já mikill áhugi á náttúrunni sem svo sameinast svo fallega ljósmynduninni. Svo hef ég mikinn áhuga á nýsköpun og almennt fallegri, jákvæðri og hvetjandi hugsun.“

Framtíðarplön?

„Framtíðarplönin eru að stækka Made By Iceland þannig að það nýtist betur í kynningu á landi og þjóð.
Það eru ýmis teikn á borði sem verða bara að fá að koma í ljós á næstu misserum.“

Hér eru nokkrar ljósmyndir sem Gunnar Steinn hefur verið að taka fyrir Made By Iceland

Screen Shot 2014-12-01 at 12.43.00

Screen Shot 2014-12-01 at 12.42.27

Screen Shot 2014-12-01 at 12.43.19

Screen Shot 2014-12-01 at 12.42.40

 Tengdar greinar:

Samspil íslenskrar náttúru, menningararfs og tísku

National Geographic er heillað af Íslandi

Þrír ljósmyndarar fóru til Íslands

 

SHARE