Vika í ræktinni breyttist skelfilega í martröð

Við rákumst á þennan á Facebook og stóðumst ekki mátið að deila honum með ykkur.

Kæra dagbók.

Konan mín (elskuleg) gaf mér vikukort í líkamsræktarstöð í fertugsafmælisgjöf. Þó að ég sé enn í frábæru formi eftir að hafa æft fótbolta í yngri flokkunum fyrir 25 árum ákvað ég að slá til og prófa þetta. Ég hringdi í líkamsræktarstöðina og mælti mér mót við einkaþjálfara sem heitir Agnes, en auk þess að vera eróbik-kennari og einkaþjálfari sagðist hún vera fyrirsæta fyrir framleiðendur fimleika- og sundfatnaðar. Hún er 26 ára. Konan mín virtist ánægð með hvað ég var ákafur að byrja. Í líkamsræktarstöðinni var ég hvattur til að halda dagbók yfir framfarir mínar.

Mánudagur: Dagurinn byrjaði kl. 6 um morguninn. Erfitt að koma sér fram úr en það var þess virði þegar ég kom í stöðina og Agnes beið eftir mér. Hún lítur út eins og grísk gyðja, með ljóst hár, geislandi augu og töfrandi bros. Vá! Agnes fór með mig í kynningarferð um stöðina og sýndi mér öll tækin. Hún tók púlsinn á mér eftir fimm mínútur á hlaupabrettinu. Hún hafði áhyggjur af því að púlsinn minn væri of hraður en það var nú kannski líka af því ég stóð alveg upp við hana. Ég naut þess að horfa á hvað hún var flínk þegar hún var að kenna í eróbiktímanum sínum eftir að ég hafði lokið æfingunum mínum. Mjög hvetjandi. Agnes hvatti mig áfram við magavöðvaæfingarnar þó að mig verkjaði reyndar í magann af því að rembast við að halda honum inni alltaf þegar hún var nálægt. Þetta verður frábær vika!!

Þriðjudagur: Ég drakk heila könnu af kaffi og að lokum tókst mér að hafa mig út úr dyrunum. Agnes lét mig liggja á bakinu og ýta þungri járnstöng upp í loftið, og síðan setti hún lóð á stöngina! Lappirnar mínar voru dálítið linar á hlaupabrettinu en ég komst samt einn og hálfan kílómetra. Uppörvandi bros hennar gerði erfiðið þess virði. Mér líður frábærlega! Ég hef eignast nýtt líf.

Miðvikudagur: Eina leiðin fyrir mig til að bursta tennurnar er að leggja tannburstann á vaskborðið og færa munninn fram og aftur á honum. Ég held að ég sé tognaður í báðum brjóstvöðvunum. Það var allt í lagi að keyra á meðan ég þurfti hvorki að stýra né stoppa. Ég stöðvaði bílinn í bílastæðahúsi líkamsræktarstöðvarinnar. Agnes var óþolinmóð við mig og sagði að öskrin í mér væru öðrum gestum stöðvarinnar til ama. Röddin í henni er of hressileg svona snemma á morgnana og þegar hún skammast verður hún nefmælt sem er mjög pirrandi. Mig verkjaði í brjóstkassann þegar ég fór á hlaupabrettið svo Agnes setti mig í stigvélina. Hvers vegna í fjandanum hafa menn fundið upp vél sem líkir eftir athöfnum sem lyftur hafa gert úreltar? Agnes sagði mér að hún myndi hjálpa mér að komast í form og njóta lífsins. Hún sagði líka eitthvað fleira.

Fimmtudagur: Agnes beið mín með tennurnar sem líktust helst tönnum í vampíru og þunnar grimmdarlegar varirnar voru tilbúnar í fólskulegt urr. Því miður var ég klukkutíma of seinn, ég var svo lengi að reima skóna. Agnes lét mig vinna með ketilbjöllur. Þegar hún sá ekki til hljóp ég burtu og faldi mig í karlaklefanum. Hún lét Hans ná í mig og sem refsing var ég settur í róðrarvélina.

Föstudagur: Ég hata tíkina Agnesi meira en nokkur manneskja hefur nokkurn tíma hatað aðra manneskju í sögu mannkynsins. Heimsk, grindhoruð, blóðlaus lítil klappstýrutýpa. Ef það væri einhver líkamshluti á mér sem ég gæti hreyft án sársauka þá myndi ég berja hana með honum. Agnes vildi láta mig vinna á þríhöfðunum. Ég hef enga þríhöfða! Og ef þú vilt ekki fá dældir í gólfið ekki rétta mér helvítis handlóðin eða eitthvað sem er þyngra en samloka. (Ég er viss um að þú lærðir þetta í sadistaskólanum sem þú fórst í og útskrifaðist úr með hæstu einkunn). Hlaupabrettið fleygði mér af sér og ég lenti á næringarráðgjafanum. Af hverju gat ég ekki lent á einhverju aðeins mýkra, eins og leiklistarkennaranum eða kórstjóranum?

Laugardagur: Agnes skildi eftir skilaboð á símsvaranum með sinni urgandi, skræku rödd: Hvers vegna var ég ekki mættur? Bara að heyra í henni fékk mig til að langa til að grýta tækinu í vegginn. Hins vegar hafði ég ekki einu sinni kraft til að nota sjónvarpsfjarstýringuna og endaði á því að horfa á veðurfréttarásina í 11 klukkutíma.

Sunnudagur: Ég þarf að láta einhvern keyra mig í kirkjuna svo ég geti þakkað guði fyrir að þessi vika er á enda. Ég mun líka biðja fyrir því að á næsta ári muni konan mín (tíkin sú) velja handa mér afmælisgjöf sem er skemmtilegri, til dæmis rótarfyllingu eða ófrjósemisaðgerð.

 

Höfundur: Ókunnur

Tengdar greinar: 

Maðurinn sem vildi vera heima – Brandari

Helgarnámskeið fyrir karlmenn – Brandari

Klósettferðin í Kringlunni – Brandari

SHARE