Vikumatseðill: 20. – 27. október

Við þekkjum öll umræðuna um það „hvað á að vera í matinn í kvöld“ og hversu leiðinleg þessi umræða getur verið. Ein aðferð til þess að sporna við því að þurfa að ræða þetta aftur og aftur, er að gera matseðil fyrir alla vikuna sem hægt er að fylgja. Þá sleppur þú við að taka þessa ákvörðun á hverjum degi og kemst líka hagstæðar frá matarinnkaupunum.

Hér er matseðill fyrir þessa viku:

Mánudagur

lasagna

Lasagna með nautahakki 

500 gr nautahakk
1 laukur
2 hvítlauksrif
1 msk tómatpurré
1 dós niðursoðnir tómatar
2 msk chillitómatsósa eða önnur tómatsósa
1 poki rifinn ostur
1 stór dós kotasæla
2 msk Dijon sinnep
salt og pipar
2 tsk garam masala
Hvítlaukskrydd
1/2 dós af hvítlauksrjómaosti /piparrjómaostur
Lúka fersk basilika

Saxið laukinn og hvítlaukinn og steikið í olíu á pönnu, kryddið með garam masala og smá hvítlaukskryddi.  Þegar laukurinn er orðinn mjúkur þá bætið þið nautahakkinu út í  og steikið vel og kryddið með salti og pipar.  Bætið síðan út í tómatpúrreé,chillitómatsósunni og niðursoðnu tómötunum og  kryddið vel eftir smekk. Síðan blanda ég yfirleitt svona eins og hálfri dós af hvítlauksrjómaosti út í. Það er voðalega gott að setja basilikuna út í, í lokinn og kannski smá yfir ostinn áður en það er sett í ofninn.

Takið kotasæluna og setjið í skál og blandið út í hana Dijon sinnepinu.

Þá er bara að raða í eldfast mót, byrja á því að setja smá nautahakk í botninn, síðan lagsana plötur og kotasælublönduna.  Endurtaka síðan og enda með því að setja fullt af rifnum osti ofan á . Setjið í 200°C heitan ofn í 30 mínútur.

Það er alltaf gott að vera með hvítlauksbrauð og salat með þessu.

 

Þriðjudagur

avocado-tagliatelle-1

Avacado pasta

400 gr tagliatelle
1 þroskaður avókadó
2-3 hvítlauksrif
safi úr 1/2 lime
salt og pipar eftir smekk
lúka af steinselju
2 msk ólífuolía
1 kjúklingateningur
1 kjúklingabringa skorin í bita(ef vill)

Setjið vatn í pott með 1 kjúklingatening og hitið vatnið að suðu. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Takið avókadóið og skerið í tvennt, takið steininn úr og náið kjötinu úr með skeið. Setjið avókadóið í blandara ásamt hvítlauknum, limesafanum, steinseljunni og ólífuolíunni og maukið saman. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við hvítlauk ef ykkur finnst þörf.
Svo er bara að sigta vatnið frá pastanum og hella avókadó sósunni yfir og dreifa parmesan yfir. Ég tók kjúkling sem ég átti afgangs og setti út í pastað með sósunni og það var alveg geggjað.

 

Miðvikudagur

piece-of-pie

Baka með spínati og parmaskinku

1 tilbúið bökudeig(nú eða heimagert)
100 gr frosið eða ferskt spínat
1 rauðlaukur
nokkrar sneiðar parmaskinka
1 ferskur mozzarella skorinn í sneiðar
1 dós sýrður rjómi
2 egg
1/2 dl rjómi
150 gr af osti(bara það sem til er í ísskápnum)
5 litlir tómatar eða 2 stórir
2 tsk kapers
basilika og oregano
rifinn parmesan ofan á bökuna

Forhitið ofninn ií 180°C.
Steikið rauðlaukinn og spínatið á pönnu þangaði til að það verður mjúkt og kryddið með salti, pipar og smá múskati.
Blandið saman sýrðum rjóma, eggjum og rjóma og kryddið með salti og pipar og smá chillidufti. Setjið tilbúna deigið í kringlótt form og setjið bökunarpappír ofan og og hellið annað hvort hrísgrjónum eða bökukúlum ofan á og bakið deigið í ofninum í 10 mínútur, takið þá út og takið bökunarpappírinn ofan af. Þá er best að setja í botninn spínat- lauk blönduna, svo mozzarellaostinn, skinkuna, tómatana og hellið svo eggjablöndunni yfir. Dreifið kapers yfir kryddið með óreganó og basiliku og dreifið parmesan osti yfir.
Hækkið ofninn í 200°C og bakið bökuna í 35-40 mínútur.

 

Fimmtudagur

chicken-satay

Satay kjúklingasalat með mangó og avakado

2 kjúklingabringur
1 poki spínat
1 mangó
1 avókadó
1 krukka fetaostur
3 tómatar
kasjúhnetur
1 krukka satay sósa
smá ólífuolía
salt og pipar
Balsamik síróp (eftir smekk)
1 dl kúskús soðið

Steikið kjúklinginn upp úr uppáhalds kryddinu ykkar nú eða bara með smá salti og pipar og auðvitað einhverju góðu kjúklingakryddi. Þegar kjúklingurinn er gegnum steiktur er gott að hella satay sósunni yfir og láta í malla í nokkrar mínútur, taka svo af hitanum og láta þetta kólna aðeins. Síðan er bara að græja kúskús grjónin samkvæmt leiðbeiningum, en mér finnst alltaf ofsa gott að blanda smá smjöri út í þau þá verða þau svo mjúk og góð, sérstaklega svona spari.
Síðan er bara að skera niður grænmetið og passa upp á að skvetta smá sítrónusafa og salti á avókadóið svo að það verði ekki strax brúnt og ljótt.
Svo er bara að blanda öllu saman í fallega skál og dreifa fetaostinum yfir í lokinn og nota olíuna frá honum ásamt smá balsamik sírópi en ég notaði geggjað balsamik glaze með trufflum frá Nicolas Vahé.

 

Föstudagur

pizza-med-hraskinku-og-ferskum-fikjum

Pizza með hráskinsku og ferskum fikjum

1 skammtur pizzadeig
3 ferskar fíkjur skornar í báta
1 bréf parmaskinka
salt og pipar
Rautt pestó
1 lúka fersk basilika
2 dl ólífuolía
2 hvítlauksrif pressuð
1 poki ferskur mozzarella
Parmesan ostur

Fletjið pizzadeigið út og setjið rautt pestó á það. Rífið mozzarella ostinn yfir gróft, setjið fíkjurnar yfir en skiljið eina eftir sem þið setjið yfir þegar pizzan kemur út ofninum. Dreifið parmaskinkunni yfir, hluta af basilikunni og saltið og piprið.
Takið ólífuolíuna og blandið hvítlauknum út í hana og dreifið yfir pizzuna. Bakið við 220°C í 20 mínútur. Þegar pizzan er tilbúin, takið hana út og dreifið restinni af fíkjunum yfir, fersku basilikunni og smá óreganó. Svo er auðvitað alltaf gott að rífa ferskan  parmesan yfir.

 

Laugardagur

rostbeef-11

Roastbeef með sætum kartöflum og wasabi sósu

500 gr roastbeef
salt og pipar
Ólífuolía
2 tsk chilliduft

Takið kjötið og dreifið olíu yfir það allt vel og vandlega. Kryddið með salti og pipar og chillidufti eftir smekk og nuddið kryddið vel inn í kjötið. Hitið pönnuna vel og steikið í nokkrar mínútur á hverri hlið. Setjið svo í eldfast mót og verið búin að hita ofninn í 150°C. Það er best að nota kjöthitamælir og stinga honum í þykkasta hlutann af kjötinu og þegar kjötið hefur  náð 62°C í innri hita þá er það tilbúið en það getur tekið 45 mínútur.

Sósa:
3 msk majónes(notaði sítrónumajónes frá Nicolas Vahé)
3 msk sýrður rjómi
salt og pipar eftir smekk
wasabi paste eftir smekk

Blandið öllu saman í skál og smakkið til því það er svo mismunandi hversu sterka maður vill hafa sósuna. Svo er gott að gera hana og láta hana standa í nokkra stund áður en maður ber hana fram.

Kartöflur:
1 sæt kartafla
chilliolía
salt og pipar
1 hvítlauksrif pressað
smá kartöflumjöl

Takið kartöfluna og afhýðið hana og skerið í langa strimla eins og franskar kartöflur. Setjið í eldfast mót með smjörpappír í botninum. Setjið kartöflurnar í mótið og dreifið yfir kryddi, olíu og kartöflumjöli og veltið þeim upp úr þessu.
Setjið í ofninn með kjötinu en þær þurfa svona hálftíma – en það er gott að þegar maður tekur kjötið út er gott að hita grillið í ofninum og láta þær vera inn í ofninum 10 mínútum lengur til þess að þær verði stökkar og góðar.

 

Sunnudagur

sinnep-svinalund-1

Svínalundir með basil sinnepi 

1 svínalund
ólífuolía
1 krukka basil sinnep frá Nicolas Vahé
2 dl sojasósa
2 msk púðursykur
2 msk tómatsósa

Takið sojasósuna, púðursykurinn og tómatsósuna og blandið saman í skál ásamt smá dassi af ólífuolíu. Takið svínalundina og snyrtið af henni mestu fituna og setjið í poka og hellið sojasósu blöndunni í pokann og lokið pokanum. Látið þetta standa inn í ísskáp í lágmark klukkustund.
Þegar lundin er búin að taka sig inn í ísskáp, takið hana þá úr pokanum og setjið í eldfast mót, hellið vökvanum yfir hana og smyrjið hana svo með basil sinnepinu. Svo er bara að setja hana í ofninn og elda við 180°C í 20-30 mínútur en það fer auðvitað alveg eftir ofninum hjá manni en lundin þarf að ná kjarnhita upp á 64-65°. Hún má vera aðeins bleik inn í því þá er hún best.
Svo var ég með bakaðar kartöflur með þessu og gott salat, svo er bara undir hverjum og einum komið hvernig sósu maður vill með þessu.

 

Eftirréttur

image

Heimagerður rjómaís með bananasúkkulaðisósu

500 ml rjómi
4 egg
4 msk sykur/ljós púðursykur
2 tsk vanillusykur
1 msk kaffilíkjör eða amaretto
150 gr rjómasúkkulaði frá Nóa Síríus

Hellið rjómanum í skál og þeytið vel. Setjið eggin og sykurinn í aðra skál og þeytið þangað til það verður létt og ljóst. Blandið þá saman við vanillusykrinum og líkjörinu. Síðan takið þið rjómann og blandið honum saman við eggjablönduna smá saman, passið upp á að blanda þessu varlega saman með sleif. Blandið síðan út í söxuðu súkkulaðinu. Hellið í form eða skál og frystið. Það tekur ísinn lágmark sólarhring að frosna.

Það er síðan auðvitað hægt að breyta þessu aðeins með því að setja hvaða tegund sem er af súkkulaði í ísinn. En síðan er ómissandi að hafa fersk ber með.

Bananasúkkulaðisósa

2 dl rjómi
1 stór plata af Pipp með bananafyllingu

Setjið hvort tveggja í pott og blandið saman við vægan hita þangað til súkkulaðið er vel bráðnað.

 

Vikumatseðill var í boði:log lol

 

 

SHARE