Brynjar Steinn slær í gegn á snapchat með einlægum og persónulegum myndböndum. Hann ræðir allt milli himins og jarðar og farðar sig af mikilli snilld. Í síðustu viku sagði hann frá því þegar hann kom út úr skápnum fyrir föður sínum og vakti það mikla athygli.
„Ég er ekki ennþá að trúa þessu, segir hinn 17 ára gamli Brynjar Steinn Gylfason, eða Binni Glee, eins og hann kallar sig á samfélagsmiðlum. Hann hefur vakið verðskuldaða athygli á Snapchat upp á síðkastið og er með rúmlega 8000 þúsund fylgjendur. Sjálfur er hann enn að átta sig á því að hann sé orðinn vinsæl snapchat-stjarna. Enda gerðist það nánast á einni nóttu.
5000 á einum mánuði
„Það hvarflaði ekki að mér að ég yrði svona vinsæll, en frænka mín hafði mikla trú á mér og hvatti mig áfram. Hún segist alltaf hafa vitað að ég næði langt.“
Til að gefa gleggri mynd af vinsældum Binna, þá fjölgaði snapchat-fylgjendum hans um 5000 manns á einum mánuði. Sem jaðrar eflaust við Íslandsmet.
Hann er einlægur og persónulegur og ræðir meðal annars opinskátt um kynhneigð sína, en hann er nýkominn út úr skápnum. Þá er hann nýbyrjaður að taka upp förðunarmyndbönd sem hafa svo sannarlega engan byrjendabrag á sér.
Kýldi á förðunarmyndband
„Ég fékk áhuga á förðun í fyrra eftir að ég sá homma mála sig, en hann er líka hálf filippískur eins og ég. Í kjölfarið fór ég að prófa mig áfram og frænka mín hjálpaði mér. Ég er ennþá að læra í dag en er með eitthvað á hreinu,“ segir Binni og blaðamaður getur staðfest það. Eyeliner-línan hans er til að mynda óaðfinnanleg, eitthvað sem blaðamanni hefur ekki tekist að ná fram á sínum augnlokum, þrátt fyrir margra ára æfingu.
Hann viðurkennir samt að hafa verið frekar óöruggur fyrst þegar hann byrjaði. „Ég var ótrúlega feiminn og stressaður. Ég vissi ekki hvernig fólk myndi taka í þetta. Ég er ennþá alveg feiminn því það eru svo margir að horfa á mig, en mér er samt farið að vera sama um hvað fólki finnst. Ég er bara ég sjálfur. Ég tók upp förðunarmyndband um síðustu helgi, en þorði því samt varla. Fannst ég ekki tilbúinn. En svo kýldi ég á það og fékk mjög falleg skilaboð í kjölfarið.“
Allir eiga að vera þeir sjálfir
Í apríl á þessu ári átti Binni nánast engar förðunarvörur, en síðustu vikur hefur heldur betur orðið breyting á. Hann hefur fengið mikið gefins, til dæmis frá netversluninni haustfjord.is, og umboðsaðilar ýmissa snyrtivörumerkja hér á landi hafa efnt til gjafaleikja í samstarfi við hann. Fyrir vikið hefur hann svo fengið frá þeim vörur. Þegar „snapparar“ eru farnir að fá gefins vörur frá fyrirtækjum má eiginlega segja að þeir séu búnir að meika það. Binni fer hálfpartinn hjá sér þegar blaðamaður imprar á þeirri staðreynd. Hann er hógværðin uppmáluð.
„Mig langar bara svo að sýna það að strákar geta málað sig. Og mega það ef þeir vilja. Það eiga allir að vera þeir sjálfir. Það eru skilaboðin sem ég vil senda,“ segir Binni sem farðar sig þó ekki dagsdaglega. Förðunin er einfaldlega áhugamálið hans og hann grípur í snyrtivörurnar og förðunarpenslana þegar hann langar til.
Aðspurður hvort hann langi kannski að mennta sig eitthvað í förðun í framtíðinni segir Binni það vel koma til greina, en í dag stundar hann nám við Menntaskólann á Akureyri. „Ég veit ekki hvað ætla að gera en núna þegar ég er kominn með svona mikinn áhuga á förðun þá langar mig að læra meira, enda finnst mér þetta mjög gaman.“
Kom út úr skápnum fyrir pabba
Þrátt fyrir að Binni sé fær að farða sig stafa vinsældir hans á snapchat ekki síður af því hve hann er einlægur og duglegur að opna sig um persónuleg mál. Í síðustu viku tilkynnti hann fylgjendum sínum til dæmis að hann ætlaði að koma út úr skápnum fyrir föður sínum. En á síðasta ári sagði hann móður sinni og vinum að hann væri samkynhneigður, ásamt því að birta færslu í facebook-hópnum Beauty tips. Binni hafði frestað því að ræða málin við föður sinn, en fannst rétti tíminn til þess í síðustu viku.
„Mér leið svo vel og langaði að segja honum. Ég hélt að hann hefði kannski grunað þetta, en svo var ekki. Hann trúði mér ekki fyrst. Sagði margoft að hann trúði þessu ekki og gekk svo í burtu. Við höfum ekki rætt þetta frekar en hann kemur fram við mig alveg eins og áður og er mjög góður við mig. Ég held að hann hafi fengið sjokk. Mamma hins vegar vissi þetta alltaf og sagði bara „loksins“ þegar ég kom út úr skápnum fyrir henni. Mamma sagði svo við pabba að þau gætu ekki breytt mér, svona væri ég bara, og ég held að hann átti sig alveg á því.“
Var spurður beint út
Binni segist hafa fengið mikinn og góðan stuðning frá fólkinu í kringum sig þegar hann kom út úr skápnum, en líkt og móður hans, þá grunaði marga vini að hann væri samkynhneigður. „Allir vinir mínir eru glaðir fyrir mína hönd. Ég var sjálfur búinn að vita þetta frá því ég var lítill, en það er bara erfitt að koma út. Ég ætlaði ekkert að koma út úr skápnum í fyrra en vinkona mín spurði mig beint út. Ég gat þá ekki annað en sagt henni sannleikann, enda langaði mig ekki til að lifa lengur í einhverri blekkingu. Þann 24. desember kom ég svo út úr skápnum á Beauty tips, sama dag og ég sagði mömmu.“
Á marga samkynhneigða frændur
Þrátt fyrir að marga hafi grunað að Binni væri samkynhneigður var enginn sem minntist á það við hann, ekki fyrr en vinkona hans tók af skarið í fyrra í trúnaðarsamtali þeirra á milli. Fólk tók honum einfaldlega eins og hann var, og gerir enn, hvort sem hann skilgreinir sig svona eða hinsegin. „Ég hef aldrei orðið fyrir neinu áreiti eða lent í einelti,“ tekur hann fram.
Binni er fæddur og uppalinn á Akureyri, en hann á filippíska móður og íslenskan föður. Þrátt fyrir að hafa aldrei búið í Filippseyjum er hann í góðu sambandi við fjölskylduna sína þar. „Ég á marga frændur í Filippseyjum sem eru hommar þannig þetta er ekkert skrýtið fyrir filippísku fjölskylduna mína. Þau hafa því tekið þessu mjög vel,“ segir Binni sem er mjög þakklátur fyrir allt góða fólkið í kringum sig.
Mynd/Auðunn Níelsson
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.