Viltu hætta að reykja en óttast það að þyngjast?

Viltu hætta að reykja en óttast að þú þyngist? Það er ekki jafnerfitt að forðast aukakílóin þegar maður hættir að reykja eins og þú kannski heldur. Ef þú gerir þér góða grein fyrir hvað þú borðar og gætir þess jafnframt að hreyfa þig aðeins meira en meðan þú reyktir þá er alls ekki víst að þú þyngist nokkuð. Rannsóknir sýna að mest hættan á að þyngjast er fyrstu þrjá mánuðina áður en líkaminn er búinn að stilla sig inn á eðlilegan bruna. Nikótínlyf geta gert gagn til að koma í veg fyrir að fólk þyngist meðan mestu breytingarnar ganga yfir.

Sjá einnig: Ætlar þú að láta verða af því að hætta að reykja?

Þegar fólk reykir eykst efnaskiptahraðinn og það brennir þá 10% meiri orku á meðan líkaminn bregst við efnunum í sígarettunni. Þetta þýðir hins vegar ekki að hægt sé að nota reykingar til að léttast. Líkaminn lagar sig nefnilega fljótt að nýja brennslustiginu.

Svona geturðu forðast að þyngjast þegar þú hættir að reykja

Þegar þú hættir að reykja stillir líkaminn sig inn á að fara yfir í eðlilega þyngd. Bruninn minnkar um 10% fyrsta kastið en það svarar nokkurn veginn til 140-210 kkal.

Það má hafa áhrif á líkamsbrunann með tvennu móti til að þyngjast ekki: með því að hreyfa sig meira og borða hóflega. Þannig má stýra bæði orkunáminu og orkueyðslunni. Vertu líka alltaf með vatn við höndina. Vatnsdrykkja hjálpar til við að hreinsa nikótínið úr líkamanum og vinnur gegn þyngdaraukningu. Mikilvægt er að borða máltíðir reglulega. Forðastu að láta mat koma í staðinn fyrir reykinn. Hálftíma líkamsáreynsla á dag brennir þessum auka 140-210 kkal. Þú getur til dæmis farið út að hjóla eða í röska gönguferð.

Líkamsáreynsla hefur meðal annars áhrif á eðlilega stjórnun matarlystarinnar og hjálpar því gegn reykingalönguninni. Finndu þér líkamsrækt sem þú kannt við. Þetta á að vera létt og skemmtilegt. Það er heildarlíkamshreyfingin sem segir til um orkueyðsluna. Ef þú setur meiri hreyfingu inn á dagskrána færðu heilmikið að launum án þess að borga krónu. Áhrifamesta líkamshreyfingin felst í að beita stórum vöðvahópum, t.d. við að ganga, hjóla, synda o.s.frv.

Reykingar vinna gegn áhrifum estrógen-kvenhormónanna þannig að karlhormónin verða tiltölulega áhrifameiri. Þetta getur breytt fitudreifingunni hjá konum sem reykja. Þær geta fengið karllegri líkamslínur, þar sem mittið þykknar miðað við mjaðmirnar. Slík fitudreifing er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.
Grein þessi birtist á reyklaus.is og er birt hér með góðfúslegu leyfi þeirra

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE