Ég er ein af þeim sem finnst fallegt að ramma inn augun með fallegum augnhárum hvort sem þau eru löng, þykk, þétt eða bara allt í einum pakka. Ég kann ýmis ráð við að ýkja augnhárin og má þar nefna dæmi eins og að nota góða maskara, serum sem þú berð á augnhárin á hverju kvöldi og nærir og lengir okkar eigin augnhár, fara í augnháralengingu og svo eru sumir einfaldlega með þessi góðu gen, með löng augnhár af náttúrunnar hendi.
Svo er fólk sem hefur misst augnhárin sín vegna veikinda eða rifið þau óvart af með t.d. brettara.. þekki þær þó nokkrar! En stundum langar mig bara að fá löng augnhár núna! og á fljótlegan og auðveldan hátt, þið skiljið.. og þá er ég að tala um að nota gerviaugnhár. Við erum auðvitað mjög mismunandi eins og við erum mörg og þess vegna er úrvalið á augnhárum svo mikið svo sem stutt, löng, hálf, þunn, þétt og margt fleira og ættum við öll að geta fundið gerðina sem hentar okkar augum best.
Aðalatriðið við að setja á sig gerviaugnhár er að þau passi nákvæmlega yfir augnaháralínuna okkar og þá þarf stundum að klippa af augnhárunum. Það fer alveg eftir því hversu ýkt við viljum hafa augnhárin hvort við klippum á styttri(innri krókur) eða lengri(ytri krókur) endann á sjálfum gerviaugnhárunum. Ef þú klippir á styttri endann verða þau ýktari og ef þú klippir á lengri endann verða þau minna ýkt.
Ég set örþunna línu á gerviaugnhárin og aðeins þykkara á sitthvorn endann og læt þorna í 20-30 sekúndur áður en ég legg þau á augnaháralínuna mína til að fá límið til að vera meira klístrað og að það leki ekki útum allt.
Ég set alltaf augnhárin á mig eftir að ég er búin að farða mig og þá meina ég, búin að setja allan farða á augun, augnskugga, eyeliner og maskara.
Ég legg augnhárin fyrst á miðju augnaháralínunnar minnar og festi síðan á ytri krók og síðast í innri krók á augnaháralínunni. Ég festi augnhárin þar sem augnhárin mín vaxa út.
Síðast en ekki síst geri ég TRIXIÐ mitt í lokin sem ég sýni ykkur og alveg nákvæmlega skref fyrir skref hvernig ég geri allt í myndbandinu mínu sem er hér fyrir neðan.
Tara Brekkan Pétursdóttir hefur starfað sem förðunarfræðingur hjá MAC cosmetics og No Name cosmetics.
Tara hefur haldið úti förðunarvideoum sem hafa náð góðum vinsældum þar sem hún kennir skemmtileg förðunarráð og Törutrix.
Tara hefur einnig starfað aðeins í sjónvarpi þar sem hún var með lífsstílsþætti á Istv og Hringbraut.