Óhefðbundin húsráð, það er eitthvað fyrir mig! Ég er alveg búin að sjá það. Ég er ein af þeim sem hef þjáðst af mígreni í nokkuð mörg ár og þegar ég segi „þjáðst“ þá meina ég það af öllu hjarta. Þvílíkur viðbjóður sem þessi köst eru! Ég hef legið á baðgólfinu heima hjá mér með lokaða hurð, því það er enginn gluggi, slökkt ljósin og hvílt gagnaugun á köldum flísunum á gólfinu og hugsað með mér að ég muni líklega ekki lifa þetta af. Þetta hefur orðið alveg skelfilegt og ég myndi ekki óska neinum því að fá svona köst.
Ég hef samt lært á þetta með hverju árinu sem líður og veit núna að sumt er betra fyrir mig að borða ekki, ég þarf að sofa nóg og fleira og þá eru minni líkur á því að ég fá svona köst. En það er nú önnur saga.
Aldrei þessu vant var ég að flakka um internetið og fann þá þessa einföldu aðferð til að losna við mígrenishausverk. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki ennþá prófað þetta en ég mun gera það þegar ég fæ næst mígreni. Bókað!
Það sem þú þarft er:
- Salt – Verður að vera einhver góð tegund ekki það ódýrasta í búðinni og er ríkt af steinefnum
- Sítrónusafi – Alvöru sítrónusafi úr eins og 1 stk nýkreistri sítrónu
- Vatn
Þú hrærir saman sítrónusafann og saltið og leyfir saltinu að leysast upp. Þegar það er komið þá skaltu bæta við smá vatni svo þú komir þessu örugglega niður.
Sjá einnig: Tæki sem kemur í veg fyrir mígreni
Þetta er skelfilegt á bragðið en á að virka eins og skot! Eins og fyrir töfra.
Eins og ég sagði í ísmolafærslunni þá ábyrgist ég ekki að þetta virki og sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Ég ætla svo pottþétt að prófa þetta næst þegar ég fæ mígreni og verð að viðurkenna að ég er nokkuð spennt að vita hvort þetta virki….. kannski mun ég bara kasta upp!
Ef þið prófið þetta megið þið endilega segja mér ykkar reynslu með því að senda mér línu á kidda@hun.is eða bara setja athugasemd hér fyrir neðan.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.