Elsku stúlkan mín. Daginn sem þú sérð að ég er farin að eldast, vil ég biðja þig að vera þolinmóð, en mest af öllu vil ég biðja þig að reyna að skilja hvað ég er að ganga í gegnum. Ef ég er farin að endurtaka mig þúsund sinnum þegar við tölum saman, ekki grípa fram í og segja „þú varst að segja þetta fyrir nokkrum mínútum“…. Gerðu það, hlustaðu bara. Reyndu að muna eftir öllum skiptunum sem ég las sömu söguna fyrir þig áður en þú fórst að sofa, kvöld eftir kvöld, þegar þú varst lítil.
Þegar ég vil ekki fara í bað, ekki vera reið og ekki gera lítið úr mér. Mundu eftir því þegar ég þurfti að hlaupa á eftir þér til að fá þig til að fara í sturtu og þú notaðir allar afsakanir í heimi til að fara ekki í sturtuna.
Þegar þú sérð hversu fáfróð ég er, þegar kemur að nýrri tækni, gefðu mér þá tíma til að læra og ekki gefa mér þetta augnaráð…. mundu elskan mín, ég var svo þolinmóð þegar ég kenndi þér til dæmis að borða, klæða þig, greiða hárið þitt og að takast á við daglegt líf… Daginn sem þú sérð að ég er farin að eldast, vil ég biðja þig að vera þolinmóð, en mest af öllu vil ég biðja þig að reyna að skilja hvað ég er að ganga í gegnum.
Ef ég gleymi stundum um hvað við erum að tala þegar við erum að spjalla, gefðu mér þá tíma til að muna það og ef ég get það ekki, ekki vera stressuð, óþolinmóð eða hrokafull. Þú mátt vita það að það dýrmætasta af öllu fyrir mig, er að eyða tíma með þér.
Og þegar gömlu, þreyttu fótleggirnir mínir koma mér ekki lengur á sama hraða og áður, réttu mér höndina þína eins og ég rétti þér mína þegar þú varst að byrja að ganga. Þegar þessir dagar koma, ekki vera leið…. vertu bara með mér, og reyndu að skilja mig, ég vil bara enda lífið mitt í kærleika. Tíminn og gleðin sem við höfum átt saman er mér kærust af öllu og ég þakka þér fyrir það. Með breiðu brosi og fullt af ást sem ég hef alla tíð borið til þín, vil ég segja, ég elska þig…. elsku dóttir mín.
Upprunalegi textinn var á spænsku og ljósmynd er eftir Guillermo Peña.
Þýðing: Hún.is