Tannburstun er dagleg athöfn í lífi okkar allra og góð tannhirða er undirstaða góðrar tannheilsu. Fæstir velta því eflaust fyrir sér hvað tannkrem innihalda, heldur tannbursta sig samviskusamlega kvölds og morgna, en ekki er allt sem sýnist.
Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að sum tannkrem innihalda efni sem ekki eru æskileg heilsu fólks eins og t.d. rotvarnarefnið Triclosan sem hefur sýklaeyðandi áhrif. Notkun þess er umdeild þar sem það getur valdið því að bakteríur verða ónæmar fyrir sýklalyfjum.
Fæstir vita eflaust að í öllu tannkremi eru slípiefni og sápuvirk efni sem eru þau sömu og notuð eru í þvottaefni til að fjarlægja bletti. Að sama skapi er að finna bæði bragðefni, rotvarnarefni og að sjálfsögðu flúor í tannkremum ásamt sætuefnum í sumum þeirra.
Æskilegra er fyrir þá sem eru viðkvæmir að upplagi að velja sér mildari tannkrem í staðinn sem innihalda ekki eins mikið magn kemískra efna sem geta orsakað ertingu í slímhúð munnsinns.
Heimild: umhverfisstofnun.is
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.