Ég á nokkuð mörg áhugamál og eitt af þeim eru eyðibýli og yfirgefin hús og staðir. Það er bara eitthvað við þau sem heillar mig, einhverskonar angurværð og nostalgía. Það skemmir ekki fyrir að eiga vinkonur sem hafa áhuga á sömu hlutunum og ég á allavega tvær vinkonur sem hafa mikinn áhuga á eyðibýlum og við höfum lagt upp í ferðir um landið til þess að leita að þessum gersemum.
Við opnuðum svo Tiktok í seinustu ferð og fylgjendurnir hrúguðust inn sem segir manni að það eru miklu fleiri sem hafa áhuga á þessum hluta sögunnar, alveg eins og við. Við leyfðum fylgjendum okkar að vera með okkur í könnunarleiðangri okkar og í þessum opna þætti Fullorðins hlaðvarpsins, segjum við frá og sýnum myndir frá þessari ferð.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.