Þegar ég var lítil stúlka var ég sannfærð um að hátískufatnaður væri galdraður fram á tískupallana. Að allt hlyti þetta að hefjast á rissi hönnuðar, sem svo sendi efnisstrangana ásamt ægilega fallegum skissuteikningum inn á harðlæstar saumastofur, þar sem einhver veifaði töfrasprota og viti menn; fæddur væri kjóll.
Að stuttu seinna væri hin fullkomna flík komin á herðatré, seinna það sama kvöld hlyti svo þvengmjó fyrirsæta að troða sér í sérsniðinn kjólinn og hreinlega að svífa niður pallinn, glettilega daðusleg og dulúðug á svip.
En er ferlið svo einfalt? Sannleikurinn svo svart-hvítur? Gera leikmenn sér að fullu grein fyrir því hvaða vinna í raun liggur að baki hönnun og framleiðslu hátískufatnaðar?
Hvernig er plísering til dæmis gerð í raun og veru? Hvað koma margir klæðskerameistarar að gerð einnar einustu flókinnar og íðilfagurrar hátískuflíkur?
Myndbandið sem hér fer að neðan er ekki nýtt af nálinni. Reyndar var það gefið út fyrir nokkrum misserum síðan og sýnir hluta undirbúningsvinnu fyrir sýningu Dior á vor og sumartískunni árið 2011. En engu skiptir þó að myndbandið hafi ekki verið gefið út í gær, því það sem upp úr stendur er sú nákvæmnisvinna, fjöldi fagmanna og smáatriðin sem engan endi virðast ætla að taka.
Dáleiðandi, ægifagurt og ógurlegt allt á sömu stundu:
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.