Við fengum þetta einlæga bréf sent frá ungri stúlku:
Þessi spurning er verulega algeng í mínu daglega lífi og þegar fólk þorir að spurja að þessu svara ég þessu augljóslega játandi því jú ég geng skakkt og bæti oft á tíðum við að ég sé fötluð. Þegar ég segi fólki að ég sé fötluð horfir það oft á mig eins og ég sé rugluð og ranghvolfir augunum. Nokkrir hafa látið út úr sér að það sé kjaftæði því ég sé ekki í hjólastól. En þá segi ég þeim bara eins og er, hjólastóll eða önnur hjálpartæki er ekki það sem gerir mig að fötluðum einstakling ÉG ER FÖTLUÐ OG STOLT AF ÞVÍ ! Því þetta gerir mig af þeirri manneskju sem ég er í dag.
Algengt er að fólk stari á mig vegna göngulags, sem ég skil að vissu leiti, ég skil að ég labba ekki eins og flestir eru vanir en ég meina gengur þú og næsta manneskja sem þú sérð eins? Nei, ég nefnilega hélt ekki. Ég er alin upp við það að enginn sé eins og hef ég lært að lifa með því. Það tók tíma því að þegar ég var yngri sætti ég mig ekki við ástandið en nú tel ég mig bara nokkuð sérstaka og hefur þetta kennt mér að það sé mikið betra að vera „öðruvísi“ því það gerir mig sterkari einstakling og ég get vonandi sýnt fram á það að ef ég get það, geta það allir!
Ég þarf hjálp við ótrúlegustu hluti daglegs lífs þó ég mögulega líti ekki út fyrir það og líti frekar út fyrir að vera nokkuð sjálfstæð. Ég þarf til dæmis aðstoð við það að loka poka, opna mjólkurfernu, setja föt á herðatré, opna dósir og taka upp þunga hluti og er þessi listi alls ekki tæmandi. Þessir hlutir sem eru mér næstum ómögulegir eru þó flestum sem lifa í þessu samfélagi taldir vera sjálfsagðir hlutir að geta. Ég er svolítið hissa á því að ég fái ennþá í dag spurninguna „er þetta ekki erfitt?“ eða jafnvel „myndiru ekki vilja vera venjuleg?“
Svar mitt við fyrri spurningunni er oft snúið en þægilegasta svarið er þó jú þetta er erfitt en höfum við ekki öll eitthvað sem við þurfum að gera til þess að halda áfram okkar lífi sem við myndum í einhverjum tilfellum segja að væri erfitt. Mín staða er erfið jújú ég viðurkenni það fúslega en ég þekki ekkert annað svo afhverju ætti ég að vera kvarta yfir að hafa ekki eitthvað sem ég þekki ekki og mun aldrei þekkja?
Svar mitt við seinni spurningunni er hinsvegar ansi einfalt NEI ég myndi ekki vilja vera venjuleg því ég er í fyrsta lagi stolt af því að vera ég og vera í mínum sporum því ég veit að líf mitt er alls ekki slæmt og ég er stolt af því sem ég hef þurft að ganga í gegnum og hvernig það hefur aðeins farið uppá við með tímanum. Auk þess sem ég get ekki hugsað mér að eyða tíma í það að finna út úr því hver skýring annarra er á því að vera „venjulegur“. Fyrir mér er í rauninni ekkert venjulegt því það er ekkert eins. Hvernig getum við sagt að eitt sé venjulegt en annað ekki?
Það gerir mig ekki að minni manneskju að ganga skakkt og þurfa aðstoð við litla hluti sem tengjast daglegu lífi. Persónulega finnst mér samfélagið gleyma því of oft að við fatlað fólk, eða öryrkjar eins og svo margir þekkja okkur, skiptum alls ekki minna máli í því hlutverki að skapa samfélagsímyndina sem þetta samfélag hefur mótað. Án okkar, eins og ykkar hinna, væri þetta samfélag einsleitt og leiðinlegt til lengdar eða með öðrum orðum gengi bara alls ekki upp.
Svo gerðu eitt fyrir mig kæri lesandi áður en þú ferð að vorkenna næsta einstakling eða bíða eftir því að þetta lagist. Hugsaðu ef þú værir í þessum sporum, hvernig myndir þú vilja láta hugsa eða horfa í áttina að þér. Ég er nokkuð viss um að þú værir STOLT/UR af því sem þú hefur áorkað og biður ekki einn né neinn um vorkun. Vorkun er ekki það sem við leitum að við erum VENJULEG rétt eins og ALLIR hinir í þessu samfélagi.
Markmið mitt er að fækka fólki á landinu, og vonandi í heiminum, sem sér fötlun í einhverri mynd sem hömlun á því að vera frábær einstaklingur í samfélagi sem hans er þörf, því jú ef það væri ekki til fatlað fólk væri erfitt að gera sér ljóst að þú þarft ekki að geta gengið til þess að falla í staðalímyndir heilbrigðs fólks. Því jú þú getur gengið, getur gengið skakkt, notast við hjálpartæki eða hvað sem er því við erum öll frábær og það getur engin haft áhrif á það nema þú sjálf/ur!
Steinunn Þorsteinsdóttir.