Vistvænn fatnaður með ljósmyndir af náttúru Íslands á Hönnunarmars

Fyrsta fatalínan frá fyrirtækinu Dimmblá kom á markað í fyrra með ljósmyndir af norðurljósunum eftir Sigurð Hrafn Stefnisson og hefur fengið frábærar viðtökur. Ný fatalína er nú í hönnunarferlinu.

Þema nýju línunnar er óstöðvandi náttúra Íslands og heitir línan Relentless. „Ég nota ljósmyndir meðal annars af Skeiðarársandi, Landmannalaugum og Vatnajökli. Ljósmyndirnar í nýju línunni eru eftir ljósmyndarann Ragnar Axelsson (RAX)“ segir Heiðrún Ósk hönnuður línunnar.

Sýnt verður brot úr nýju línunni á kynningu sem verður haldin á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á Hönnunarmars. Heiðrún Ósk verður með til sýnis kjól sem Ilmur Kristjánsdóttir leikkona var í á Eddunni. „Þetta er kjóll úr silki með ljósmynd af Skeiðarársandi og nýja línan verður að hluta úr silki þannig að litirnir í ljósmyndunum eru mjög skýrir og fallegir. Að auki er í vinnslu eitthvað á karlmennina sem verður einnig til sýnis“ segir hún.

Heiðrún segist spennt fyrir því að taka þátt í kynningunni og hefur mörg járn í eldinum á næstunni: „Ég hef verið að undirbúa farveginn á að kynna Dimmblá á erlendum markaði. Það hafa margir sýnt þessu áhuga og það er ekkert launungamál að stefnan er tekin þangað. Ég tek eitt skref í einu og ætla mér fyrst og fremst að byggja upp sterka ímynd og virt vörumerki“.

Dimmblá er vistvænn fatnaður með landslagsljósmyndir af íslenskri náttúru og náttúruöflum eftir framúrskarandi íslenska ljósmyndara. Fatnaðurinn er kynning á náttúru Íslands og verkum eftir íslenska landslagsljósmyndara og fær hver flík nafn eftir þeim stað þar sem ljósmyndin er tekin. Hluti af ágóða af sölu á fatnaðinum rennur til umhverfissamtakanna Landverndar sem standa vörð um Íslenska náttúru. Fyrsta fatalínan frá Dimmblá kom á markaðinn í desember 2013 og er fáanleg í verslunum í Reykjavík, Egilsstöðum og fljótlega á Akureyri.

DB-615-Edit

Kynningin verður haldin í Norræna húsinu miðvikudaginn 26. mars klukkan 16:00 til 19:00.

Dimmblá
Dimmblá á Facebook

SHARE