DIY: Gerðu grillið þitt eins og nýtt – Fyrir og eftir myndir

Ég grilla mikið – ég grilla allt árið, í snjóbyl, í sól, um sumar og um jól. Alltaf hefur Weber grillið mitt staðið með mér í gegnum þykkt og þunnt, brennt og hrátt síðan 2005. Weber grillið var orðið veðurbarið eins og sjá má.

Weber gasgrill áður en það er gert upp
Weber grill 2005 árgerð endist vel

Mörg önnur grill væru búin að kveðja mig fyrir löngu. Þetta útlit er kannski helv…. gott eftir rúm 10 ár við grillþjónustu undir miklu álagi.
Mig sem karlmann langar alltaf í nýjar græjur og var því farinn að vinna í því “við verðum að fara að endurnýja grillið” “þetta gasgrill nær engum hita..” Ég var kominn með þetta drauma Weber gasgrill á óskalistann.
Weber grill

Draumagrillið Weber Summit E470 

Á mjög krítísku augnabliki frétti ég það er hægt að fá alla varahluti í Weber grill hjá Járn & Gler. Smá blendnar tilfinningar þegar ég frétti þetta því draumagrillið fjarlægist en grillið sem hefur staðið vaktina með mér öll þessi ár átti sannarlega skilið smá uppbyggilega meðferð. Til að vita nákvæmlega hvaða grillvarahlutir þyrftu að fara á listann fór ég á vefsíðu fyrir weber varahluti. Á síðunni er slegið inn raðnúmeri á grillinu og þá er hægt að nálgast mynd með öllum íhlutum fyrir Weber gasgrill, kolagrill og eldstæði. Ég hringdi í Járn & Gler sem tóku til allt það sem mig vantaði. Mjög einfallt þar sem ég var með vörunúmerin á grillvarahlutunum, gasbrennara, grillkveikjara, gasslöngu með þrýstijafnara og bragðburstum/hlífunum yfir gasbrennurunum.


Endurnýja gaskveikjara í gasgrilli

Á myndinni má sjá hvað gamli gaskveikjarinn var orðinn lúinn – nokkuð góður samt miðað við að hafa verið yfir 10 ár  í brunaliðinu og virkaði a.m.k. stundum.
Nýi gasbrennarinn kominn í en gömlu aasbrennararnir voru ótrúlega heillegir en tengirör var orðið mjög lúið. Ég komst svo að því síðar að hitinn átti að vera mikið meiri.
Hliðarnar á grillinu voru komnar með þennan leiðinlega gráma, einhverjar útfellingar í málminum eftir 10 ára útiveru.
Eftir að hafa skipt um nauðsynlega íhluti, gasbrennarana, kveikjarann, gasleiðsluna og bragðburstir ákvað ég að lappa líka upp á útlitið.

Aðgerðin tók eina kvöldstund og umbreytinguna má sjá hér:


Háþrýstiþvottur á gasgrilli

Að hreinsa gasgrill
Til að grilla vel þá þarf grillið að vera hreint. Hvort sem við eigum gasgrill eða kolagrill. Hreinsun vill oft dragast hjá mér en það er lykilatriði að nota rétt efni þegar við ráðumst í þetta einstaklega skemmtilega verkefni. Mismunandi fletir kalla á mismunandi efni þannig að yfirborð þeirra skemmist ekki við hreinsun. Hér listi yfir þau sem ég nota en það eru til mun fleiri efni:

  • Grillgrindahreinsir fyrir alla fleti þar sem brennd fita hefur troðið sér á málmfleti sem ekki eru emeleraðir eða úr burstuðu stáli.
  • Hreinsiefni fyrir emeleraða fleti nota ég í mínu tilfelli á grilllokið, plötu undir stillihnöppum og hliðar á grillinu.
  • Á burstað stál er til þetta efni en ég notaði lakkhreinsi og steinull. Ég nuddaði stálið eins og burstun á stálinu liggur. EKKI nudda í hringi eða þvert á rendurnar þá skemmið þið áferðina. Skolið svo lakkhreinsirinn af með vel volgu vatni og þurrkið.

Sprauta gasgrill með hitaþolnu lakki

Að sprauta gasgrill
Ef grillið er orðið grátt og ljótt eins og hjá mér þá þurfum við að lakka það með hitaþolnu lakki. Á myndunum má sjá hvað pottjárnið er orðið grátt. Ég losaði grillið af hjólavagninum, ég mæli með að skoða leiðbeiningar fyrst. Áður en við lökkum er nauðsynlegt að pússa alla fleti sem á að lakka og ná öllu lauslegu af þeim. Ég renndi yfir pottinn með sandpappír og vírbursta. Til að ná öllum óhreinindum og rest af fitunni notaði ég meira af grillgrindahreinsiefninu og háþrýstiþvoði með eins heitu vatni og dælan þolir.

Teipum og notum dagblöð til að hylja alla fleti sem við viljum ekki að lakkið fari á. Sprautum tveimur umferðum með hitaþolnu lakki. Það er tvennt sem verður að passa, í fyrsta lagi að tryggja að lakkúðinn fara ekki á óæskilega staði með því að plasta í kring og í öðru lagi að fyrri umferðin sé orðin þurr.

Ef þið viljið fara alla leið þá er skrúfið þið grillið í sundur en ég get alveg mælt með þessari leið.

Burstað stál hreinsað

Hér má sjá vinstri hurðina eins og skápurinn var og hægri hurðina sem sýnir útkomuna eftir lakkhreinsi og fíngerðri núll-núll stálull.

Næst var að koma brennurunum og kveikjaranum fyrir, ótrúlega einfalt. Ef maður fer eftir leiðbeiningunum. Ég er þessi týpa sem fæ stundum RFM beint í andlitið.
Gasgbrennarar í gasgrill

Hér má sjá árangur kvöldstundarinnar:

Weber grillið orðið eins og nýtt á einni kvöldstund.
Weber grillið orðið eins og nýtt á einni kvöldstund.

Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með endinguna á weber grillinu. Ef valið stendur á milli ódýrari grilla eða vandaðari merkja eins og Weber þá mun ég ávallt velja vandaðra grillið. Ef ég þarf einhverntíma að endurnýja.
Eftir að hafa gefið grillinu eina kvöldstund þá er ég með nánast nýtt grill í höndunum. Ég mæli með því að gefa sér tíma og lappa upp á grillið. Það er alltaf meiri stemming að grilla á góðu og fallegu grilli. Góða skemmtun og gangi ykkur vel.

Ég skipti líka um grillgrind sem tekur meiri hita í sig og gefur mér frábæra möguleika til að elda á Wok pönnu, steinbaka pizzu o.fl. smelltu hér til að sjá hvað þú getur gert skemmtilegt og öðruvísi með grillinu í sumar.

SHARE