París kann að vera þekkt sem borg elskenda en yfirvöld hafa gripið til örþrifaráða til að stemma stigu við ástarlásunum svokölluðu sem ástfangin pör hafa um langt skeið fest á brýr borgarinnar í þeim tilgangi að innsigla ást sína. Þetta kemur fram á breska vefnum Telegraph
Nú er svo komið að brýrnar bera ekki lengur þann gríðarlega fjölda lása, sem má sjá dekka fjölmargar brýr í París og eru þannig farnir að ógna öryggi vegfarenda. Sérhert öryggisgler verður þannig sett upp við brýrnar og lásarnir, tákn kærleika og ævarandi ástar, væntanlega fjarlægðir við sama tækifæri.
Þá hafa borgaryfirvöld hvatt ástfangna til þess að lýsa yfir ást sinni og ævarandi kærleika á aðra og hættuminni vegu en fyrr í sumar á þessu ári hrundi hluti úr brúnni við Pont des Arts undan þunganum, en áætlað er að lásum hlaðið handrið brúarinnar hafi þá vegið ein 54 tonn að þyngd.
Allur réttur áskilinn: Joe Hoffman / Travel Photography
Í opinberri yfirlýsingu frá borgaryfirvöldum má meðal annars lesa orðin:
París er sannlega höfuðborg ástarinnar og það leikur enginn vafi á því að við erum öll gríðarlega hreykin af þeim titli. En til eru aðrar, hættuminni og jafnvel fegurri leiðir til að staðfesta og sýna ást en að festa hengilása á brýrnar.
Öryggisglerið er hluti af tilraunaverkefni borgaryfirvalda sem mun standa yfir í ákveðinn tíma, en er sett upp í þeim tilgangi að kanna hvort breytingin kunni að tryggja fremur öryggi hins almenna borgara.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.