Fólk sem iðkar lífrænan lífsstíl, stundar jóga og er vel að sér í uppruna vara, er yfirleitt ekki mikið fyrir að kaupa hluti í heilum vörubrettum. Einhverjir úr þessum hópi gætu aftur á móti þurft að gera undantekningu því heildsalan Yggdrasill stendur nú fyrir risalagersölu á fjölmörgum óvenjulegum vörum sem höfða sterkt til þessa sama hóps.
Lagersalan stendur fram á sunnudag en meðal þess sem hægt er að næla sér í á lagersölunni eru lífrænt vottaðir túrtappar, lífræn grænmetiskæfa, súrkálssafi, hampfræ, umhverfisvænt þvottaduft, mungbaunir, bætiefna-nefsprey og ilmkjarnaolíur, svo fátt eitt sé nefnt.
Lífrænir neytendur eiga því von á kostakaupum, en hlutfall þeirra sem kaupir lífrænt hefur margfaldast á síðustu árum. Lagersölur hafa ekki verið algengar í lífræna geiranum til þessa en Sirrý Svöludóttir, sölu- og markaðsstjóri Yggdrasil, segir lífræna neytendur vera í mikilli sókn og að stór hópur fólks kjósi fremur að verja matarpeningunum í góðar og næringarríkar vörur.
Yggdrasill var stofnað árið 1986 og hefur alla tíð sérhæft sig í innflutningi, dreifingu og markaðssetningu á lífrænum og heilsusamlegum vörum. Yggdrasill er með umboð fyrir mörg af fremstu vörumerkjunum í heilsubransanum, m.a. Himneska hollustu, NOW og Isola.
Lagersalan verður haldin dagana 20.-23. nóvember í húsnæði Yggdrasils að Suðurhrauni 12, Garðabæ. Gengið er inn að aftanverðu.
Nánari upplýsingar og opnunartíma má finna á www.yggdrasill.is