Yogakennari mánaðarins er Andrea Margeirsdóttir. Hún er með B.A í Sálfræði, Félagsráðgjafi, yogakennari, heilari og einn af eigendum Yogasmiðjunnar. Hún er þessa dagana að hjálpa fólki að takast á við skammdegið, kvíða og þunglyndi sem oft fylgir hraða samfélagsins og myrkrinu sem við vöknum við, förum til vinnu í og komum aftur út í aftur vinnudaginn. Fyrir marga er þessi tími þrunginn sorg og söknuði og margir halda jólin með depurð og missi í hjarta.
Hvernig getum við minnkað streitu og bætt líðan okkar?
Með Yogaiðkun og hugleiðslu getur þú komist nær því að lifa í andartakinu og njóta þess. Finna innri frið og ró. Það sem gerist með reglulegri yogaástundun og hugleiðslu er að þú nærð smátt og smátt betri stjórn á sjálfri/sjálfum þér og nærð að lifa betur í andartakinu og ekki flakka fram og tilbaka í fortíð og framtíð. Við höfum öll misjafnar byrðir að bera og sumir tímar geta verið sérstaklega þungir. Það er langtímaverkefni að huga að eigin andlegu og líkamlegu heilbrigði. Að lifa í andartakinu er langtímaverkefni.
Upphaflega átti facebook síðan mín Í átt að betri líðan að halda utan um mina vinnu, meðferðarstarf þar sem ég býð uppá tíma í heilun/djúpslökun eða einkaráðgjöf. Síðan fór ég að skrifa ljóð, orð, pistla um eigin reynslu og annarra í kringum mig og þá fylltist pósthólfið mitt af bréfum frá fólki sem var að glíma við mikla vanlíðan vegna missis, upplifði sorg, glíma við kvíða eða óhamingju í sínu sambandi og var að leita að hjálp, ráðum og stuðningi. Þarna fann ég hversu mörgum líður í raun illa, þetta er hin hliðin sem við sjáum ekki hjá fólki. Í minni meðferðarvinnu vinn ég með þessar hliðar fólks. Reyni að hjálpa fólki í átt að betri líðan. Það er mitt markmið og einlæg ósk. Það sem hefur hjálpað mér persónulega í gegnum erfiða tíma er hugleiðsla, yoga og heilun og að lifa bara einn dag í einu. Fyrir mig er hver einasti dagur gjöf.
Að ná að kyrra hugann er erfiðasta æfingin sem við gerum í yoga og það krefst tíma. þetta er langhlaup og best er að gefa sér tíma í hugleiðslu á hverjum degi, þó ekki nema sé í 10 mínútur. Ef fólk hefur ekki kynnt sér hugleiðslu þá getur verið gott að byrja á námskeiði, fjölda góðra námskeiða er í boði nú eftir áramót. Við í Yogasmiðjunni verðum til dæmis með 5 vikna námskeið Yoga gegn streitu og kvíða, sem ég kenni ásamt Regínu Kristjánsdóttur. Á því námskeiði leggjum við mikla áherslu á hugleiðslu og djúpslökun í hverjum tíma.
Verum þakklát fyrir andartakið og fyrir að fá að lifa þessa stund – hér og nú.
Í átt að betri líðan á facebook
Ég er ævintýragjörn, rauðhærð þriggja barna úthverfamamma, Kundalini jógakennari, ráðgjafi og heilari, er með fótboltaþjálfara- og dómararéttindi, hef starfað sem leikfimikennari og læknaritari og hitt og þetta. Ég er líka söngkona af lífi og sál. Með óslökkvandi lífsþorsta og forvitin um það sem lífið hefur upp á að bjóða.
Það er alltaf einhver leið úr öllum flækjum lífsins.
Satnam.