Vefsíða í tímaritaformi sem myndi varpa ljósi á hvernig líkamar kvenna eru í raun og veru – án myndvinnslu og fegrunarforrita – er nú í vinnslu, en að baki stendur bandaríski ljósmyndarinn Jade Bell.
Um er að ræða vefsíðu sem ætlað er að sýna hversu fallegar, fjölbreytilegar og aðlaðandi konur eru án þess að tölvutæknin komi nokkuð við sögu. Sjálf er Jade ekki ókunnug viðfangsefninu – en hún hefur áður gefið út ljósmyndabókina The Bodies Of Mothers og hefur hún þegar fengið eina 24 ljósmyndara sem staðsettir eru í sjö löndum til samstarfs við sig; hver og einn sem hefur deilt ljósmyndaverkum af konum hvaðanæva af jarðarkringlunni ásamt hvetjandi ágripi af sögu hverrar konu.
Sjá einnig: Merkilegt: Ákjósanlegt vaxtarlag kvenna gegnum aldirnar
Ágripi þeirra kvenna sem birtast á vefsíðunni og sitja fyrir á myndum er ætlað, að sögn Jade, að verða öðrum konum hvatning – alls staðar um heim – með því að styrkja sjálfstraust þeirra sömu, hvetja til sjálfsástar og ýta undir heilbrigða líkamsvitund.
Sjá einnig: Hefur útlitsdýrkun náð nýjum hæðum?
Fjáröflunarsíða helguð verkefninu hefur farið vel af stað, en vefsíðan sjálf mun bera heitið You Are Beautiful. Á vefsíðunni verður hægt að lesa upplýsingar um konurnar sjálfar, uppruna þeirra, lífshlaup og líkamsform. Jade vinnur nú að því að endurskapa síðuna A Beautiful Body og er ætlunin að setja upp síðuna You Are Beautiful í stað eldri vefsíðunnar. Með þessu móti vonast Jade til þess að nýja síðan verði uppspretta stuðnings, hvatningar og sjálfsástar þar sem konur sem hafa glímt við skert sjálfstraust meginþorra ævi sinnar – megi sækja vísdóm og kærleika.
Ég er með líkama móður. Mér líkar ekki við allt – ég er með hnúða og dældir og ör sem ég sé greinilega sjálf. En ég mun aldrei gleyma því að þessi líkami hefur alið börn. Líkami minn hefur verið dvalarstaður og heimili allra barnanna minna, sem eru fjögur talsins. Með þessum líkama hef ég nært og elskað öll börnin mín. Og þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd, þá er það nóg til þess að ég elska einmitt þennan líkama.
Það eru svo margar konur þarna úti sem upplifa sig aleinar og án stuðnings. Þessar sömu konur eru að takast á við líkamlegar breytingar, þær eru að ganga gegnum meðgöngu, fæðingarþunglyndi, fósturmissi, átraskanir – þunglyndi, þyngdaraukningu, þyngdartap, krabbamein og jafnvel aðra sjúkdóma og afleiðingar slysa. Fyrra verkefni mitt, A Beautiful Body var ómæld uppspretta stuðnings fyrir einmitt þessar konur – um alla veröld.
Hêr að neðan má sjá ágrip af gullfallegum ljósmyndum og útdrætti af frásögn kvenna sem hafa setið fyrir í einmitt þessum tilgangi – að leggja verkefninu You Are Beautiful lið í þeim tilgangi að styðja við og styrkja aðrar konur:
Í hvert sinn sem eg sé ljósmynd af sjálfri mér er ég snögg að súmma inn á alla gallana – auka húð, þéttan kjálkasvip – augun á mér sitja of nálægt hvoru öðru – ég er með appelsínuhúð, húðin á mér er mislit … ég gæti haldið endalaust áfram. Ég get litið glæsilega út og mér getur liðið eins og ég sé glæsileg, en um leið og ég sé ljósmynd af sjálfri mér hverfur sjálfstraustið. Bara gufar upp. Ég hata sjálfa mig.
Ég veit að lífsreynsla mín, allt sem ég hef gengið í gegnum – hefur mótað mig sem manneskju og gert mig að þeirri konu sem ég er í dag. Í raun ætti ég að vera stolt af þeim örum sem ég ber; innra sem ytra. Lafandi brjóstin og slitförin eru sögur af ferðalaginu – hvernig ég fór að því að ganga með og næra öll fimm kraftaverkin mín. Ég reyni eftir fremsta megni að minna sjálfa mig á það – daglega.
Það hryggir mig hvað hugtakið FALLEG hefur fengið á sig ódýran bjarma í daglegu tali. Hvað orðið FALLEG hefur tekið á sig afbakaða merkingu og þrönga skilgreiningu. Fegurð snýst ekki bara um líkamlegt útlit og líkamlegt aðdráttarafl tekur á sig svo ólíkar myndir – allt eftir því hvaða menningarkimi á í hlut. Þetta er allt bundið menningu, tímaskeiði og persónubundnum smekk hvers og eins. Ég segi börnunum mínum að þau séu falleg í alvörunni. Þau eru ótrúlegar manneskjur sem eru fær um að áorka svo miklu.
Þegar ég sé aðrar konur sem eru að gera einhverja hluti sem ég skil ekki sjálf, konur sem eru háðar venjum sem mér eru framandi – er mér alltaf eðlislægt að dæma. En þegar ég lít í eigin barm, langar mig að brosa. Því þeirra einstaklingsbundna leið gegnum lífið – það val sem ég hef engan skilning á sjálf – þeirra lífshlaup sem ég hef engan rétt á að dæma snýst um að víkka minn eigin sjóndeildarhring, að gera mér kleift að elska í víðari skilningi þeirra orða og dýpka skilning minn á veröldinni sem kona og manneskja.
Það sem er mikilvægast er að ég hef ekki svelt sjálfa mig í eina 49 daga. Það sem er mikilvægast alls er að ég vakna ekki í kvíðakasti á hverjum morgni yfir því hvað ég fékk mér að borða deginum áður. Það sem er mikilvægast alls er að ég get sjálf unnið bug á kvíðakasti og kæft óttann í fæðingu. Það sem er mikilvægast alls er að hið innra tendra ég ást; ég endurtek uppbyggileg orð og hugtök fyrir sjálfri mér á hverjum degi. Það eitt að ég skuli vera hérna er mikilvægt. Það eitt að ég hafi skrifað þessi orð er mikilvægt.
Fjáröflunar- og upplýsingasíða You Are Beautiful er HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.